19.3.2009 | 18:44
Látum ekki bullið buga okkur
Pistill sem ég skrifaði um málið á Pressuna 3. mars síðastliðinn:
Mjög er í tísku meðal erlendra fjölmiðla að fara kaldhæðnum orðum um Ísland og Íslendinga. Nýjasta dæmið er grein glanstímaritsins Vanity Fair um Ísland. Þar kemur meðal annars fram:
Skuldirnar nema 850% af þjóðaframleiðslu, íbúarnir hamstra mat og lausafé og sprengja upp nýja Range Rover bíla sína til að fá greidda trygginguna. Þetta er afleiðing lamandi sameiginlegrar brjálsemi. Hvað leiddi til þess að örsmá fiskveiði þjóð með 300.000 íbúa, ákvað í kringum 2003 að endurskapa sig sem alþjóðlegt fjármálaveldi? Í Reykjavík, þar sem karlmenn eru karlmenn og þar sem konur virðast hafa gefist gjörsamlega upp á þeim.
Allt ofangreint er rangt nema íbúafjöldinn og að karlmenn eru karlmenn.
Engin dæmi eru um sprungna bíla, hamstur matvæla eða lausafjár og ekkert bendir til annars en að karlmönnum sé áfram ágætlega treyst til flestra verka til sjávar og sveita.
Samkvæmt Greiningu Íslandsbanka eru hreinar skuldir íslendinga erlendis um 1.500 milljarðar. Stór hluti þeirra skulda er tryggður með framtíðartekjum úr orkugeiranum. Hreinar skuldir ríkissins eru metnar á um 500 milljarða. Þjóðarframleiðslan er áætluð um 1400 milljarðar á þessu ári. Hreinar skuldir okkar sem þjóðar eru lægri en eign í lífeyrissjóðakerfinu. Eignir í húsnæði, lausafé og innviðum samfélagsins eru svo margfalt verðmætari en skuldirnar.
Síðar í grein Vanity Fair eru snjöll samtöl við valda Íslendinga sem sakbitnir, en augljóslega nokkuð stoltir að vera teknir í viðtal við heimsþekkt glanstímarit, greina frá því hversu miklir kjánar og vitleysingar búa á þessu guðsvolaða skeri og hversu fíflsk við vorum að halda að við ættum eitthvað upp á dekk í alþjóðlegu fjármálalífi.
Eflaust er grein Vanity Fair ætlað að vera fréttatengt skemmtiefni. Það breytir ekki því að þetta og álíka bull á það til að festa sig í sessi sem viðurkenndar staðreyndir. Ef umræðan í landinu fer svo að mótast af þessu bulli förum við ef til vill að taka mikilvægar ákvarðanir á forsendum fólks sem ekki vill okkur neitt gott.
Fjölmiðlar eru fáfengilegir í eðli sínu, ekki síður erlendir en þeir innlendu. Þeir þrífast á einföldum sögum sem sagðar eru með tilþrifum. Allir fjölmiðlar sáu söluvænlega sögu í fámenna fiskiveiðisamfélaginu sem keypti hvert fyrirtækið á fætur öðru í stórborgum heimsins. Þeir sjá svo aftur góða sögu í falli þessa sama samfélags. En þessar sögur eru sagðar með einföldunum, afbökunum og lygum þegar með þarf.
Á sama hátt og við hefðum ekki átt að fallerast af skjalli fjölmiðla þegar vel gekk , eiga Íslendingar að hætta að sjálfhýða sig með hjálp erlendra fjölmiðla.
Við eigum að einblína á styrkleika okkar og hvað við getum lagt öðrum þjóðum til. Þetta verður grundvöllur verðmætasköpunar í landinu í framtíðinni. Verðmætasköpunin verður grundvöllur áframhaldandi lífs og menningar í landinu.
Við skulum horfa til þess að þrátt fyrir allt eigum við heilbrigðiskerfi, menntakerfi og lífeyriskerfi sem allur heimurinn öfundar okkur af. Við eigum auðlindir í hafi, bæði fisk og kannski olíu. Við eigum orku í iðrum jarðar og orku sem rennur óbeisluð af fjöllum til sjávar. Við eigum meira en nóg húsaskjól og mat fyrir alla.
Á meðan Vanity Fair hæðist að því að við skulum hafa haft skáld sem seðlabankastjóra og dýralækni sem fjármálaráðherra þá skulum við bara minnast þess að í landinu sem blaðið er gefið út var hæfileikalaus trúður forseti undangengin átta ár.
Íslendingar engir hálfvitar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.