Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Látum ekki bullið buga okkur

Pistill sem ég skrifaði um málið á Pressuna 3. mars síðastliðinn:

Mjög er í tísku meðal erlendra fjölmiðla að fara kaldhæðnum orðum um Ísland og Íslendinga. Nýjasta dæmið er grein glanstímaritsins Vanity Fair um Ísland. Þar kemur meðal annars fram:

„Skuldirnar nema 850% af þjóðaframleiðslu, íbúarnir hamstra mat og lausafé og sprengja upp nýja Range Rover bíla sína til að fá greidda trygginguna. Þetta er afleiðing lamandi sameiginlegrar brjálsemi. Hvað leiddi til þess að örsmá fiskveiði þjóð með 300.000 íbúa, ákvað í kringum 2003 að endurskapa sig sem alþjóðlegt fjármálaveldi? Í Reykjavík, þar sem karlmenn eru karlmenn og þar sem konur virðast hafa gefist gjörsamlega upp á þeim.“

Allt ofangreint er rangt nema íbúafjöldinn og að karlmenn eru karlmenn.

Engin dæmi eru um sprungna bíla, hamstur matvæla eða lausafjár og ekkert bendir til annars en að karlmönnum sé áfram ágætlega treyst til flestra verka til sjávar og sveita.

Samkvæmt Greiningu Íslandsbanka eru hreinar skuldir íslendinga erlendis um 1.500 milljarðar. Stór hluti þeirra skulda er tryggður með framtíðartekjum úr orkugeiranum. Hreinar skuldir ríkissins eru metnar á um 500 milljarða. Þjóðarframleiðslan er áætluð um 1400 milljarðar á þessu ári. Hreinar skuldir okkar sem þjóðar eru lægri en eign í lífeyrissjóðakerfinu. Eignir í húsnæði, lausafé og innviðum samfélagsins eru svo margfalt verðmætari en skuldirnar.

Síðar í grein Vanity Fair eru snjöll samtöl við valda Íslendinga sem sakbitnir, en augljóslega nokkuð stoltir að vera teknir í viðtal við heimsþekkt glanstímarit, greina frá því hversu miklir kjánar og vitleysingar búa á þessu guðsvolaða skeri og hversu fíflsk við vorum að halda að við ættum eitthvað upp á dekk í alþjóðlegu fjármálalífi.

Eflaust er grein Vanity Fair ætlað að vera fréttatengt skemmtiefni. Það breytir ekki því að þetta og álíka bull á það til að festa sig í sessi sem „viðurkenndar staðreyndir“. Ef umræðan í landinu fer svo að mótast af þessu bulli förum við ef til vill að taka mikilvægar ákvarðanir á forsendum fólks sem ekki vill okkur neitt gott.

Fjölmiðlar eru fáfengilegir í eðli sínu, ekki síður erlendir en þeir innlendu. Þeir þrífast á einföldum sögum sem sagðar eru með tilþrifum. Allir fjölmiðlar sáu söluvænlega sögu í fámenna fiskiveiðisamfélaginu sem keypti hvert fyrirtækið á fætur öðru í stórborgum heimsins. Þeir sjá svo aftur góða sögu í falli þessa sama samfélags. En þessar sögur eru sagðar með einföldunum, afbökunum og lygum þegar með þarf.

Á sama hátt og við hefðum ekki átt að fallerast af skjalli fjölmiðla þegar vel gekk , eiga Íslendingar að hætta að sjálfhýða sig með hjálp erlendra fjölmiðla.

Við eigum að einblína á styrkleika okkar og hvað við getum lagt öðrum þjóðum til. Þetta verður grundvöllur verðmætasköpunar í landinu í framtíðinni. Verðmætasköpunin verður grundvöllur áframhaldandi lífs og menningar í landinu.

Við skulum horfa til þess að þrátt fyrir allt eigum við heilbrigðiskerfi, menntakerfi og lífeyriskerfi sem allur heimurinn öfundar okkur af. Við eigum auðlindir í hafi, bæði fisk og kannski olíu. Við eigum orku í iðrum jarðar og orku sem rennur óbeisluð af fjöllum til sjávar. Við eigum meira en nóg húsaskjól og mat fyrir alla.

Á meðan Vanity Fair hæðist að því að við skulum hafa haft skáld sem seðlabankastjóra og dýralækni sem fjármálaráðherra þá skulum við bara minnast þess að í landinu sem blaðið er gefið út var hæfileikalaus trúður forseti undangengin átta ár.


mbl.is Íslendingar engir hálfvitar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynt á traust DV

Ekki skil ég þetta margra daga fjölmiðlaupphlaup vegna lygavefsins sem Reynir Traustason náði að flækja sig í.

Það sem er í húfi er traust almennings á DV. Fyrir rúmri viku kom ágætis könnun frá MMR þar sem kemur í ljós að innan við 5% landsmanna ber eitthvað traust til blaðsins. Fréttastofa Sjónvarps, sá fjölmiðill sem mest traust hefur, er treyst af ríflega fimmtán sinnum fleiri en DV.

Raunar er það svo að flestir þeirra "djöfla" sem DV hefur "pönkast" hvað mest á og reynt "að taka niður" njóta meira trausts en DV samkvæmt könnunum MMR.

Könnunin sjálf virðist traust, stórt slembiúrtak úr þjóðskrá sem á að gefa áreiðanlega niðurstöðu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grein Economist um bankahrunið

Góður kunningi minn, blaðamaður Economist, Henry Tricks var hér á landi fyrir rúmri viku. Blaðið sem kemur út á morgun er með grein um bankahrunið hér á landi.

Mjög fín lesning.

http://www.economist.com/world/europe/displaystory.cfm?story_id=12762027


Hvort vega þyngra...

Hagsmunir Lúxemborgar af töpuðum skuldum til banka í eigu íslenska ríkisins í Lúxemborg, eða þeir almennu hagsmunir þeirra að viðhalda bankaleynd?

Og hvernig dettur ráðherra bankamála að reyna að kúga Lúxemborgara til að opna bankakerfi sitt upp á gátt með þessum hætti?

Þetta er galið og mun aðeins leiða til þess að ríkið mun tapa enn meiru vegna lýðskrums viðskiptaráðherra.


mbl.is Kaupþing í Lúx ekki selt nema gögnin fáist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alger misskilningur

Landlægur misskilningur á eðli bankaleyndar í Lúxemborg ríður húsum í fjölmiðlum og umræðunni. Hluthafar bankastofnana (les. íslenska ríkið) hafa ekki leyfi til að aflétta bankaleynd í Lúxemborg.

Bankaleynd er fyrir Lúxemborgara eins og fiskimiðin fyrir Íslendinga. Að opna upp á gátt heilan banka og skoða allt sem þar hefur gerst myndi vera jafn óhugsandi fyrir Lúxemborgara og að sökkva kjarnorkukafbáti á Faxaflóa fyrir okkur. Þeir sem rjúfa bankaleynd í Lúxemborg eiga yfir höfði sér þunga refsingu, óháð því hvort þeir eigi bankana eða bara starfi hjá þeim.

Hinsvegar getur saksóknari í Lúxemborg í einstökum tilfellum sótt gögn í bankana, sé uppi rökstuddur grunur um glæpsamlegt atferli.


mbl.is Stjórnvöld í Lúxemborg veiti upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenski Draumurinn

Söguþráður kvikmyndarinnar Íslenski draumurinn er myndlíking fyrir síðustu árin á Íslandi.

Álappalegur gaur (Tóti/Ísland) finnur leið til að græða mikla peninga hratt með því að taka mikla áhættu. Hann skuldsetur sig af kappi og sekkur til botns í sóun og vafasömum fjárfestingum. Frekar pirrandi nágranni (Felix Bergsson/Danske Bank) hans er með stöðugar umvandanir við hann.

Í ljós kemur að veldi hans er byggt á sandi og hann hefur jafnvel ekki hagað sér alveg lögum samkvæmt. Söguhetjan missir æruna, peningana og er dæmdur í fangelsi um hríð. Í fangelsinu er pirrandi nágranninn fangavörður.

Þegar hann kemur út tekur vinur hans (Jón Gnarr/alþjóðlegir fjölmiðlar) "reality check" með honum. Söguhetjan er stórskuldug og það sem verra er ærulaus. Á sama augnabliki ber að ólíklegan bjargvætt, fyrrverandi tengdaföður söguhetjunnar (IMF/Rússar) sem hjálpar honum að rísa á fætur með góðum ráðum og lánsfé.

Lausnin á vanda aðalsöguhetjunnar felst í að finna traust á ólíklegasta stað, sigrast á vandanum með þrotlausri vinnu yfir langan tíma.

Gæti Róbert Douglas hafa fundiðlausnina á vanda Íslendinga áður en vandinn kom upp?


Inntak jólanna

Fór í dag með börnin að sjá The Nativity Story, glæsilega bandaríska stórmynd gerða eftir sögunni kunnu af fæðingu frelsarans.

Fyrir utan okkur og vin sonar míns voru fjórir í salnum. Aðrir voru sennilega í Kringlunni eða Smáralind að upplifa hið sanna inntak jólanna.


Eru góðar fréttir engar fréttir?

Stundum er sagt að engar fréttir séu góðar fréttir.

Þegar maður lítur yfir fjölmiðlana okkar þá virðist fréttamatið gjarnan vera þannig að góðar fréttir séu engar fréttir. Hjá þeim flestum er mjög afgerandi tilhneiging til að bjóða upp á vandamál frekar en lausnir, vera á móti frekar en með og hvetja til ófriðar frekar en finna flöt á sátt.

Oft er hreinlega pínlegt hversu langt fjölmiðlafólk þarf að seilast til að búa til ófrið og þreytandi hversu smá viðfangsefnin eru. Allt of sjaldan heyrir maður eða yfirvegaða umræðu um grundvallaratriði, miklu frekar froðukenndar upphrópanir sem eru svo almennar að enginn tekur mark á þeim og öllum er sama.

Þetta á eflaust að hluta til rót sína í mjög óþroskaðri og á köflum óheflaðri pólitískri umræðuhefð, en einnig því að það er í rauninni erfiðara að segja jákvæðar fréttir og finna lausnir en að benda á það sem betur mætti fara.

Það var því óskaplega gaman að fá inn um lúguna Háskólablaðið, sem gefið er út af nemendum við Háskólann í Reykjavík. Þar var lagt upp með að segja eingöngu góðar fréttir.

Það er vonandi að eitthvað af þeirri skæðadrífu af nýjum og endurnýjuðum fjölmiðlum sem koma munu á markað eftir jól verði áherslan á fleiri lausnir, uppbyggilegri gagnrýni og hrósi þeim sem hrós eiga skilið. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband